Takmarkanir á heimildum fjármálafyrirtækja til að eiga hluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri

Hallgrímur Ásgeirsson

Útdráttur


Í greininni er fjallað um ákvæði í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fela í sér takmarkanir á heimildum fjármálafyrirtækja til að eiga hluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Það ákvæði laganna sem mestu máli skiptir er 1. mgr. 22. gr. en það á við ef eignarhaldið leiðir til þess að lögð sé stund á starfsemi viðkomandi fyrirtækja. Ákvæðið er skýrt þannig að eignarhald lánastofnunar í fyrirtæki í óskyldum rekstri teljist því aðeins fela í sér starfsemi í skilningi ákvæðisins að hægt sé að rekja tilkomu eignar­haldsins til viðskiptasambands lánastofnunarinnar við viðskiptaaðila. Líklegt er að markmið eignarhaldsins krefjist einhverra sérstakra afskipta lánastofnunarinnar af starfsemi viðskiptaaðilans. Gera verður ráð fyrir að til þess að geta haft slík afskipti þurfi lánastofnunin að hafa ráðandi áhrif á ákvarðanatöku varðandi viðskiptaaðilann. Líkur eru á því að jafna megi þeim afskiptum til þess að lánastofnunin stundi að einhverju eða verulegu leyti þá starfsemi sem fram fer á vegum viðskiptaaðilans. Í greininni er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að það geti talist eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi fjármálafyrirtækja að eiga hluti í fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Hins vegar þarf að fylgjast með og stýra umfangi slíks eignar­halds til þess að vernda mikilvæga almannahagsmuni. Annars vegar getur eignarhaldið haft óheppileg áhrif á viðskiptalíf og raskað sam­keppnisaðstæðum á mörkuðum og hins vegar falið í sér áhættu fyrir fjármálafyrirtæki og grafið undan fjármálastöðugleika. Réttarreglur sem ætlað er að vernda þessa hagsmuni þurfa að vera skýrar og byggja á skilgreindum markmiðum.


Efnisorð


fjármálaréttur; félagaréttur; eignarhald; fyrirtæki; fjármálafyrirtæki

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


www.timarit.logretta.isritstjorn@timarit.logretta.is