Reglur Evrópuréttar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri

Margrét Einarsdóttir, Lena Mjöll Markusdóttir

Útdráttur


Markmið þessarar greinar er að kortleggja þær reglur sem gilda hjá Evrópusambandinu að því er varðar heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Að meginstefnu til á heilbrigðisþjónusta, sem hluti af fjórfrelsisreglum Evrópusambandsins, að vera án takmarkana sbr. 56. – 57. gr. SFE. Evrópudómstóllinn hefur þó fallist á að frelsið til að sækja heilbrigðisþjónustu yfir landamæri sé ekki með öllu takmarkalaust. Hefur þannig verið talið réttlætanlegt að heimaríki geri kröfu um fyrirfram heimild ef um er að ræða heilbrigðisþjónustu sem veitt er innan sjúkrahúsa. Slíkt er hins vegar ekki talið réttlætanlegt ef um er að ræða heilbrigðisþjónustu sem veitt er utan sjúkrahúsa. Þá er í greininni gerð grein fyrir efnisatriðum nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2011/24 um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og réttindi sjúklinga. Í henni eru teknar upp margar af þeim reglum sem Evrópudómstóllinn hefur áður staðfest í dómum sínum. Meðal annars er þar lögfest í hvaða tilvikum heimilt er að krefjast áðurfenginnar heimildar heimaríkis til að þiggja heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki á kostnað heimaríkisins. Að lokum er kannað hvort og þá hvaða áhrif framangreindar reglur um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri hafa hér á landi. Ísland er aðili að EES-samningnum og hafa reglur um þjónustufrelsið lagagildi hér á landi á grundvelli þess samnings, sbr. 36. og 37. gr. EES-samningsins, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Dómafordæmi Evrópudómstólsins hafa mikil áhrif á túlkun og framkvæmd framangreindra ákvæða EES-samningsins um veitingu heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, sbr. 6. gr. EES-samningsins og 2. mgr. 3. gr. EDS-samningsins. Gilda því sömu reglur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu að því er varðar veitingu heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Tilskipun nr. 2011/24 hefur þó ekki enn verið samþykkt sem hluti af EES-samningnum. Má ganga út frá því að það muni gerast fyrr en síðar.


Efnisorð


evrópuréttur; ees-réttur; heilbrigðisréttur

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


www.timarit.logretta.isritstjorn@timarit.logretta.is