Hvenær telst lán vera erlent? Ályktanir af dómaframkvæmd

Stefán A. Svensson

Útdráttur


Lögfræðingar hafa ekki farið varhluta af þeim álitaefnum og þeirri umræðu sem tengist lánsskuldbindingum og flokkun þeirra í annars vegar gild lán í erlendum gjaldmiðlum og hins vegar lán í íslenskum krónum bundin við gengi erlendra gjaldmiðla sem brjóta í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Eins og kunnugt er eru helstu álitaefnin í grunninn tvíþætt. Annars vegar hvenær lán telst vera gilt lán í erlendum gjaldmiðlum frekar en lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Hins vegar hvernig fari um vexti af slíkum skuldbindingum. Í greininni er fjallað um fyrra viðfangsefnið. Draga má nokkuð heildstæðar ályktanir af fyrirliggjandi dómaframkvæmd og hún gefur nokkuð skýra vísbendingu um það hvenær lán getur talist vera gilt lán í erlendum gjaldmiðlum fremur en lán í íslenskum krónum. Samandregið, í fyrsta lagi að sé lánsskuldbinding ljóslega tilgreind sem gengistryggð þá brjóti hún í bága við ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001. Í annan stað að sé skuldbindingin skýrlega tilgreind í erlendum gjaldmiðlum þá sé um gilt lán í erlendum myntum að ræða og gildir þá einu þótt lánið hafi t.a.m. verið greitt út í íslenskum krónum og/eða greitt af því í íslenskum krónum. Í þriðja lagi að sé skuldbinding tilgreind með svokölluðu „jafnvirðisorðalagi“ þá ráði efndir aðalskyldna aðila mestu um hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum geti talist vera að ræða. Þegar grannt er skoðað er heldur ekki um það að ræða að sérstaks ósamræmis gæti í réttarframkvæmd.


Efnisorð


fjármálaréttur; lán

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir


www.timarit.logretta.isritstjorn@timarit.logretta.is